Fréttabréf 30. apríl 2013

Kæru félagsmenn

Aðalfundur Myndhöggvarafélagsins verður haldinn næstkomandi þriðjudag 7. maí 2013 kl. 19.00. Í stjórn þarf að kjósa formann, meðstjórnenda og tvo varamenn. Stjórnin vill minna félagsmenn á mikilvægi samtalsins. Aðalfundur er vettvangur fyrir félagsmenn að hittast og fara yfir árið. Það er mikilvægt að heyra hvað má betur fara og hvernig við ætlum að efla félagið.

Þann 9. apríl 2013 sl. var úthlutað úr Serra sjóðnum. Katrín Sigurðardóttir hlaut verðlaunin og vill stjórnin óska henni til hamingju og góðs gengis í Feneyjum.

Þann 16 febrúar sl. var haldið Þorrablót sem heppnaðist vel og vill stjórnin þakka skemmtinefndinni fyrir vel unnin störf og þeim sem komu á þorrablótið fyrir samveruna.

Námskeið í járnsmíði og í gerð silikons voru haldin í mars. Því miður komu ekki margir á járnsmíðakynninguna en fullt var á gerð silikons námskeiðinu. Stjórnin vill þakka Guðbirni Gunnarssyni, Guðmundi Gestssyni og Ragnhildi Stefánsdóttur fyrir sitt framlag en þau gáfu alla vinnu sína.

Myndhöggvarafélagið var í samstarfi við Sequences VI og laugardaginn 5. apríl opnaði Ragnheiður Gestsdóttir innsetningu í verkefnarýminu. Eygló Harðardóttir og Ríkharður H. Friðriksson voru með gjörning í Höggmyndagarðinum og Magnús Logi Kristinsson var með gjörning í verkstæðinu. Kvöldið tókst afar vel og mættu yfir 200 manns á opnunina. Myndhöggvarafélagið bauð upp á aðstöðu og súpu. Stjórnin vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem tóku þátt í verkefninu og sérstaklega Ingarafni Steinarssyni.

Sumardaginn fyrsta var Myndhöggvarafélagið með ókeypis tréskúlptúrnámskeið fyrir krakka. En verkefnið var styrkt af Barnamenningarhátíð. Ingirafn Steinarson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir voru leiðbeinendur en stjórnin vill þakka öllum sem tóku þátt og sérstaklega Gústaf Jarl Viðarsson fyrir framlag sitt í að útvega ókeypis efnivið.

Svar frá Mennta- og menningarmálaráðaneytinu við styrktarumsókn félagsin kom í lok febrúar en í svarinu var bent á að umsókn okkar falli undir ”Myndlistarsjóð” sem mun taka til starfa á árinu. Við bíðum eftir að auglýst verði eftir umsóknum úr sjóðnum og munum þá senda umsóknina okkar aftur.

Enn eiga nokkrir eftir að sækja MHR bókina. Stjórnin hefur tekið saman þær bækur og merkt þær viðkomandi eigendum. Bækurnar eru á eldhúsborðinu í Myndhöggvarafélaginu ásamt nafnalista. Stjórnin hvetur eigendur að nálgast sitt eintak og merkja við.

Því miður höfum við ekki haft nóga innistæðu fyrir leigu á geymslurými hjá Korpúlfsstöðum og vegna þessa hefur stjórnin ákveðið að hækka leiguna um 5 prósent frá og með 1. júní. Einnig mun leiga á vinnustofu vera tengd við vísitölu frá og með 1. júní. Ástæðan er að leigusamningur við Reykjavíkurborg er vísitölutengdur.

Þann 18. maí 2013 opnar Finnbogi Pétursson í Höggmyndagarðinum en verkefnastjóri verður Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Næsta haust mun Sólveig Aðalsteinsdóttir opna og Karlotta Blöndal verður verkefnastjóri yfir þeirri sýningu. Viðburðirnir verða auglýstir nánar síðar.

Þann 1. apríl 2013 var Hertha María Richardt Úlfarsdóttir ráðin til eins árs við þrif tvisvar í viku í Myndhöggvarafélaginu. Snyrtingunni á annarri hæð var breytt í skúringakompu. Fjárfest var í ryksugu og skúringagræjum. Stjórnin vonar að þetta hjálpi til við að bæta umgengni í húsi Myndhöggvarafélagsins.

Stjórnin hefur gert verklýsingu fyrir formann, ræstingamann, verkefnastjóra Höggmyndagarðsins og fyrir listamanninn sem sýnir á vegum Myndhöggvarafélagsins í Höggmyndagarðinum. Verið er að vinna verklýsingu fyrir gjaldkera. Verklýsingarnar eru í viðhengi þessa tölvupósts. Vonum við að þetta verði til þess að ákveðið gegnsæi sé til staðar og að allir viti hvað er ætlast til af þeim sem taka að sér verkefni sem Myndhöggvarafélagið borgar fyrir.

Aðalfundur Myndhöggvarafélagsins verður haldinn næstkomandi þriðjudag 7. maí 2013 kl. 19.00. Í stjórn þarf að kjósa formann, meðstjórnenda og tvo varamenn. Stjórnin vill minna félagsmenn á mikilvægi samtalsins.Aðalfundur er vettvangur fyrir félagsmenn að hittast og fara yfir árið. Það er mikilvægt að heyra hvað má betur fara og hvernig við ætlum að efla félagið.

Einnig vill stjórnin nota tækifærið og þakka fyrir samstarfið á liðnu ári og óska komandi stjórn velfarnaðar á næsta starfsári.

Lengi lifi Myndhöggvarafélagið í Reykjavík.

Gleðilegt sumar

Stjórnin

Hafðu

samband!