1972-1980

Stofnun félagsins

Sumarið 1972 var loks tekin sú ákvörðun að stofna formlegt félag myndhöggvara, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, og var það gert á afmælisdegi Ragnars Kjartanssonar, 17. ágúst. Fyrsti formaður félagsins var Magnús Á. Árnason, Ragnar Kjartansson var ritari og Sigfús Thorarensen tannlæknir var gjaldkeri. Aðrir stofnfélagar voru Þorbjörg Pálsdóttir, Hallsteinn Sigurðsson, Sigrún Guðmundsdóttir, Magnús Tómasson, Jón Gunnar Árnason, Sigurður Steinsson, Jón B. Jónasson, Jón Benediktsson, Guðmundur Benediktsson, Snorri Sveinn Friðriksson og Björgvin Sigurgeir Haraldsson.

Eitt brýnasta verkefni félagsins var að finna hentuga aðstöðu og sumarið 1973 leitaði félagið til Reykjavíkurborgar um að fá á leigu húsnæði á Korpúlfsstöðum þar sem myndhöggvarar gætu unnið að verkefnum sínum. Þessari málaleitan var vel tekið og fékk félagið leigusamning til tuttugu ára og „ódýrustu leigu, sem um getur í Íslandssögunni”, eins og Ragnar Kjartansson komst að orði í sýningarskrá árið 1974 – leigan var ein króna á ári. En húsnæði þetta var þó illa farið og óhentugt, súrheysturnar og gryfjur, auk tveggja íbúða austast í húsinu sem höfðu skemmst illa í eldi. Þarna var hvorki rafmagn né hiti, engri einangrun var fyrir að fara og húsið allt óþétt, en félagsmenn töldu þó að framfaraspor hefði verið stigið. Þremur árum seinna, árið 1976, tókst svo að skipta á súrheysgeymslunum og hlöðulofti sem lá að íbúðunum tveimur svo hægt var að opna á milli. Þá fengust líka styrkir frá ríki og borg til að gera húsnæðið nothæft og voru reistir veggir, þakið einangrað og lagt í salina rafmagn og hiti. Aðstaðan var formlega opnuð á Listahátíð 1980 og sagði Ragnar Kjartansson þá í blaðaviðtali að þetta væri stærsta og besta vinnustofa fyrir myndhöggvara á öllum Norðurlöndum. Vinna við húsnæðið hélt þó áfram og smátt og smátt var aukið við plássið svo að árið 1988 höfðu félagsmenn til afnota um 1000 fermetra á Korpúlfsstöðum. Þar var þá stór vinnusalur, fjórar vinnustofur sem leigðar voru út, fundaraðstaða og gestaíbúð.

Aðstöðumálin hafa alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfi Myndhöggvarafélagsins. Meðlimir lögðu fram mikla vinnu við að koma húsnæðinu á Korpúlfsstöðum í lag og nutu við það góðs samstarfs við borgaryfirvöld allt þar til árið 1989 að farið var að endurskoða hlutverk Korpúlfsstaða, en að því verður komið síðar.

Árið 1974 var útisýning á Listahátíð í fyrsta sinn haldin á vegum hins nýstofnaða Myndhöggvarafélags og var hún þá sett upp í Austurstræti í stað Skólavörðuholtsins. Þar með var sýningin komin í hjarta bæjarins og þetta var reynt aftur á Listahátíð 1976. Þá sýndu fimmtán listamenn í Austurstræti og vakti sýningin mikla athygli, en fljótlega fór að bera á skemmdarverkum og vandræðum með verkin. Verk Vignis Jóhannssonar, sex metra hátt járnvirki, hvarf um hábjartan dag og spannst af því nokkurt blaðamál, enda þótti þetta með ólíkindum bíræfinn þjófnaður. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að starfsmenn borgarinnar höfðu fjarlægt verkið þótt ekki fengist skýring á því hvers vegna það var gert. Þá voru skemmdir unnar á átta verkum og eitt verkanna datt ofan á fót á barni sem meiddist nokkuð mikið svo fara þurfti með það á sjúkrahús. Allt þetta gerðist þrátt fyrir að miðbæjarlögreglan segðist hafa verið með gæslu á sýningunni dag og nótt.

Árið 1976 hafði fjölgað nokkuð í félaginu og tók þá einn hinna yngri félagsmanna, Níels Hafstein, við formannsstarfinu. Fyrir næstu Listahátíð, 1978, var ákveðið að flytja sýningu Myndhöggvarafélagsins inn í hús. Varð Ásmundarsalur fyrir valinu og sýndu þar tólf félagsmenn en auk þeirra voru á sýningunni verk eftir Sigurjón Ólafsson. „Þessi sýning, eins og flestar sýningar okkar, einkennist öðru fremur af mikilli breidd í vali verka,” sagði Ragnar Kjartansson og bætti því við að sýningin væri nú haldin innan dyra vegna skemmdarverkanna sem unnin höfðu verið á sýningunum í Austurstræti. „Með því að halda innisýningu teljum við okkur hafa snúið á skemmdarvargana sem á undanförnum útisýningum hafa herjað á höggmyndir okkar.”

Á Þessum árum unnu félagsmenn mikið starf við að endurbæta húsnæðið á Korpúlfsstöðum og gera það nothæft en þó var jafnframt því unnið að sýningum og í júlí 1979 hófst sýning Myndhöggvarafélagsins á Kjarvalsstöðum sem liður í dagskránni „Sumar á Kjarvalsstöðum”. Þar voru sýnd verk eftir sextán myndhöggvara og mátti vel sjá hve mikil breidd var í félagsskapnum, sumir sýndu hefðbundin natúralísk verk, aðrir afstraktmyndir og enn aðrir það sem nú væri líklega kallað innsetningar. Við opnun sýningarinnar flutti Rúrí gjörning. Þetta sýndi ekki aðeins þá fjölbreytni sem var í listsköpun heldur var líka til vitnis um hina umburðarlyndu stefnu félagsins, en Ragnar Kjartansson sagði einmitt í blaðaviðtali út af sýningunni að það væri „… eitt af markmiðum okkar
í Myndhöggvarafélaginu að forðast allan meting um strauma í listum”.

Árið eftir, í júní 1980, opnaði félagið loks sýningu í sínu eigin húsnæði á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum og voru þar verk eftir fimmtán félagsmenn og ellefu gesti. Sigurjón Pétursson, forseti borgarstjórnar, setti sýninguna og margt var á opnuninni enda veður gott og fólk forvitið að skoða aðstöðuna. Sýningin sjálf fékk þó misjafna dóma og skrifaði Valtýr Pétursson í Morgunblaðið að „hún hefði getað verið miklu betri og hún verður að verða miklu betri næst, þegar ýtt verður úr vör”. Hrafnhildur Schram skrifaði um sýninguna í Vísi og segir nokkurn flaustursbrag á henni þótt hún lofi framtakið og óski myndhöggvurum til hamingju með nýju aðstöðuna. En þetta sama sumar var hins vegar sett upp önnur sýning við Korpúlfsstaði, viðamikil útisýning sem fékk yfirskriftina Experimental Environment 1980 og var unnin með styrk frá Menningarsjóði Norðurlanda og menntamálaráðuneytinu. Þar sýndu íslenskir listamenn, margir þeirra meðlimir í Myndhöggvarafélaginu, með listamönnum frá hinum Norðurlandaþjóðunum og teygði sýningin sig um stórt svæði, allt neðan úr fjöru og upp á Úlfarsfellið. Verkin voru af ýmsum toga og þóttu flest nýstárleg, umhverfislistaverk, gjörningar, kvikmyndasýningar og landskúlptúrar. Var þessi sýning bæði frískleg og kröftug og áhorfendur jafnt sem listamennirnir sjálfir nutu þess frjálsræðis sem fólst í því að sýna verkin úti í náttúrunni. Í grein um sýninguna vitnar Bragi Ásgeirsson í einn þátttakendanna sem hafði einfaldlega sagt: „Nú er gaman að veralistamaður á Íslandi!”

Hafðu

samband!