1991-

1981-1987

Á síðari hluta níunda áratugarins varð aftur minna um sýningarhald þótt félagar störfuðu mikið og margir kæmu að félagsstarfinu. Stjórnarskipti voru ör og tók Rúrí við formannsstarfi af Steinunni árið 1987, Ragnhildur Stefánsdóttir af henni árið 1988, þá Örn Þorsteinsson árið 1989 og Kristinn E. Hrafnsson árið 1990. Vinnan sóttist að mestu vel á Korpúlfsstöðum þótt félagar yrðu fyrir áfalli haustið 1986 þegar heitavatnsleki eyðilagði um tvö hundruð verka þeirra sem voru þar í geymslu, verk sem samtals voru metin á um fjórtán milljónir króna.

Í nóvember 1989 var aftur haldin félagssýning á Korpúlfsstöðum og var hún að hluta til helguð minningu Jóns Gunnars Árnasonar sem hafði látist fyrr á árinu, 21. apríl, skömmu eftir að hann var gerður að heiðursfélaga í Myndhöggvarafélaginu. Miklar deilur stóðu um þessar mundir um Korpúlfsstaði sem áttu eftir að magnast næstu misseri svo sýningin var haldin í nokkurri óvissu um framtíð félagsins og aðstöðu þess. Davíð Oddsson borgarstjóri hafði lýst því yfir um sumarið að það yrði næsta stórverkefni borgarstjórnarinnar að byggja upp menningarmiðstöð á Korpúlfsstöðum og sagði að hafist yrði handa við framkvæmdir árið 1991, en myndhöggvarar höfðu reyndar lengi hvatt til þess að húsin yrðu öll gerð upp og nýtt undir slíka starfsemi. Í september tilkynnti borgarstjóri síðan um hina miklu listaverkagjöf Errós til borgarinnar og um leið að henni yrði komið fyrir á Korpúlfsstöðum. Um þetta mál stóðu miklar umræður allan þennan vetur og var skipuð nefnd undir forystu Huldu Valtýsdóttur til að huga að framtíðarnotkun húsanna. Fóru þá margir að hafa áhyggjur af því að þrengt yrði að myndhöggvurum eða þeim jafnvel úthýst alveg og á aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna í maí 1990 var samþykkt ályktun þar sem skorað var á borgaryfirvöld að tryggja Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík framtíðaraðstöðu á Korpúlfsstöðum. Hulda Valtýsdóttir sagði slíkar áhyggjur ástæðulausar og sagðist jafnframt telja sér óhætt að fullyrða að myndhöggvurum yrði tryggð viðunandi aðstaða, annaðhvort á Korpúlfsstöðum eða annars staðar.

Málið reyndist snúnara en mönnum virtist í fyrstu og framkvæmdir hófust ekki 1991 eins og borgarstjóri hafði boðað. Arkitektar voru kallaðir til að endurhanna húsið og meðal annars fenginn franskur arkitekt, Philippe Barthélemy, til að hanna þann hluta hússins sem hýsa átti safn Errós. Það var loks vorið 1993 að borgarstjórn samþykkti endanlega að farið skyldi út í framkvæmdirnar og veitti til þess peningum. Við nánari eftirgrennslan kom þó í ljós að húsið væri svo illa farið að það svaraði engan veginn kostnaði að gera það upp. Þetta vandræðamál varð þó til þess að Myndhöggvarafélagið fékk nýtt og vonandi varanlegt húsnæði hjá Reykjavíkurborg og 9. júlí 1993 tók félagið við lyklunum að húsinu við Nýlendugötu 15 þar sem áður hafði verið vélsmiðja Kristjáns Gíslasonar. Við það tækifæri sagði Brynhildur Þorgeirsdóttir, sem tekið hafði við formennsku félagsins af Kristni árið 1992, að félagsmenn væru ánægðir með nýja húsið og með það að félagið skyldi vera flutt í miðbæinn.

Árið 1992 var haldin afmælissýning í Nýlistasafninu sem helguð var minningu Ragnars Kjartanssonar sem lést 26. október 1988. Ragnar hafði verið einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Myndhöggvarafélagsins. Hann var alla tíð einn virkasti meðlimur þess og var kjörinn heiðursfélagi á aðalfundi félagsins á Korpúlfsstöðum 23. apríl 1988. Sumarið 1993 stóð félagið síðan fyrir sýningu á verkum meðlima, en slíkar sýningar höfðu legið niðri frá sýningunni haustið 1989. Þessi sýning var haldin í Hveragerði á lóðinni kringum Hótel Örk og inni í hótelinu sjálfu og bar einna mest á verkum yngri félaga. Gefin var út sýningarskrá og sýningin naut stuðnings bæjaryfirvalda og fyrirtækja í Hveragerði.

Fjöldi félaga jókst jafnt og þétt og þegar félagið varð tuttugu og fimm ára sumarið 1997 voru þeir orðnir sjötíu og sjö. Þá varð Anna Eyjólfsdóttir formaður félagsins og tók við af Finnu Birnu Steinsson sem hafði verið formaður frá því Brynhildur Þorgeirsdóttir hætti árið 1995. Í tilefni af afmælinu var haldin sýning í smiðjunni á Nýlendugötu á menningarnótt 16. ágúst á vegum sérstakrar hátíðarnefndar. Í tilefni af aldarfjórðungs afmæli Myndhöggvarafélagsins var jafnframt hugað á frekari sýningar og undirbúningur hófst að stórri útisýningu í tengslum við Listahátíð sumarið 1998. Þessi stóra sýning skyldi jafnframt vera fyrsti liður í þriggja ára sýningarverkefni sem teygði sig um alla strandlengju borgarinnar og inn í fyrirtæki og stofnanir víðs vegar um bæinn. Sýningin þetta sumar samanstóð af verkum tuttugu og fimm félaga og var verkunum komið fyrir við ströndina í Skerjafirði og lá milli borgarmarkanna frá Kópavogsbæ vestur að Seltjarnarnesbæ, alls fimm kílómetra leið. Sýningin vakti gríðarlega athygli, fékk mikið umtal og var án efa ein fjölsóttasta listsýning sem haldin hefur verið í borginni.

Næsti liður í þessu stóra sýningarverkefni var sýningin FIRMA árið 1999 með tíu þátttakendum sem sýndu verk sín í jafnmörgum fyrirtækjum og stofnunum í borginni. Loks núna, sumarið 2000, er hringnum lokað með annarri strandlengjusýningu sem teygir sig eftir norðurströnd borgarinnar. Þannig er óhætt að segja að Myndhöggvarafélagið í Reykjavík hafi minnt rækilega á sig eftir meira en tuttugu og átta ára starf og þegar nær þrjátíu og þrjú ár eru liðin frá því að Jón Gunnar og Ragnar stóðu að fyrstu útisýningunni á Skólavörðuholtinu.

Eins og sjá má af þessu stutta söguágripi hefur gengið á ýmsu þau ár sem Myndhöggvarafélagið hefur starfað en þó hefur í raun stöðugt miðað fram á við í starfi félagsins og félagsmanna þess. Endurnýjun hefur verið mikil í félaginu og þótt aðeins fjórir séu nú í félaginu af þeim fjórtán sem stofnuðu það árið 1972 hefur félagatalan nær sexfaldast og fimmti hver meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna er nú félagi í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík.

Hafðu

samband!