Heiðursfélaginn

Gísli Kristjánsson tengist MHR og húsnæði þess að Nýlendugötu 15 margslungnum böndum. Hann fæddist hér árið 1924 en foreldrar hans voru Ingibjörg Árnadóttir ljósmóðir og Kristján Gíslason eldsmiður.

Hér var heimili fjölskyldunnar og hér rak faðir hans eldsmiðju og vélsmiðju frá árinu 1920. Snemma beygist krókurinn og Gísli öðlaðist dýrmæta reynslu nálægt glóandi málminum.

Síðar lærði hann vélsmíði og loks bæði rafsuðu og logsuðu í Bandaríkjunum. Hann var útsjónarsamur frá fyrstu tíð og listræn hagleikssmíði hans leynist víða í borginni.

Þann 9.júlí árið 1993 afhenti Reykjavíkurborg Myndhöggvarafélaginu húsnæðið að Nýlendugötu 15. Að því tilefni bauð Brynhildur Þorgeirsdóttir, þáverandi formaður MHR, Gísla að setja hér upp aðstöðu. Það var mikið gæfuspor fyrir félagið.

Allt frá fyrstu tíð hefur Gísli deilt reynslu sinni og þekkingu með félagsmönnum, rétt þeim marga hjálparhöndina og verið ráðagóður á ýmsa lund.

Árið 2010 var Gísli Kristjánsson gerður að heiðursfélaga Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík.

Hafðu

samband!