1967-1971

Undanfari

Myndhöggvarafélagið í Reykjavík hefur síðasta aldarfjórðunginn verið einna virkast af félögum myndlistarmanna og telur nú ríflega hundrað félagsmenn. Ástæða þessa er líklega einna helst sú að félagið hefur frá upphafi lagt áherslu á kröftugt sýningarhald með félagsstarfinu og félagar hafa þannig unnið náið saman við listsköpun sína ekki síður en að hagsmunamálum. Strax í upphafi var einnig stefnt að því að koma upp sameiginlegri vinnuaðstöðu fyrir félagsmenn og hefur uppbygging hennar og rekstur alla tíð verið mikilvægur liður í félagsstarfinu. Félagið hefur allt frá byrjun sameinað mjög breiðan hóp listamanna, unga jafnt sem eldri og þá sem vinna í hefðbundna miðla ekki síður en hina sem fara ótroðnar slóðir.

Myndhöggvararnir Ragnar Kjartansson og Jón Gunnar Árnason voru helstu hvatamenn að stofnun félagsins árið 1972 og störfuðu báðir í því þar til þeir létust, Ragnar haustið 1988 og Jón Gunnar aðeins nokkrum mánuðum síðar, um vorið 1989. Stofnfélagar voru fjórtán og eru fjórir þeirra enn í félaginu, þau Sigurður Steinsson, Þorbjörg Pálsdóttir, Hallsteinn Sigurðsson og Sigrún Guðmundsdóttir. Félagið óx svo jafnt og þétt eftir því sem á leið og var strax mjög áberandi í sýningarhaldi, stóð fyrir útisýningum í hvert sinn sem Listahátíð var haldin í Reykjavík framan af, og fyrir fleiri sýningum, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu.

Stofnun Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík á sér aðdraganda í óformlegum útisýningum sem haldnar voru á Skólavörðuholti árin 1967 til 1972, en þær sýningar spönnuðu einmitt mikla umbreytingatíma í íslenskri myndlist. †msir komu að þessum sýningum, bæði eldri listamenn og þeir yngri, en til dæmis má nefna að á sýningunni 1969 sýna bæði Magnús Á. Árnason sem fæddur var árið 1894 og Benóný Ægisson, fæddur 1952. Þar var líka að sjá mjög ólíka listamenn saman, Dieter Roth og Ragnar Kjartansson, Sigurjón Ólafsson og Jón Gunnar Árnason, og Þorbjörgu Pálsdóttur og Kristján Guðmundsson, svo nokkrir séu nefndir.

Fyrsta útisýningin var haldin að hausti 1967 á vegum Skólafélags Myndlistarskólans í Reykjavík, en þar fór fram á kvöldnámskeiðum kennsla í höggmyndalist. Aðalumsjón með sýningunni höfðu þeir Ragnar Kjartansson, sem kenndi við skólann, og Jón Gunnar Árnason, en auk þeirra var Jón B. Jónasson í sýningarnefnd. Alls sýndu þar sautján listamenn. Geir Hallgrímsson borgarstjóri var fenginn til að vera viðstaddur opnunina og sagðist vera ánægður með það hvernig til hefði tekist. Mikið var fjallað um sýninguna í blöðum og margt skrafað í bænum. Fjölmargir lögðu leið sína á holtið til að skoða sýninguna og segir Bragi Ásgeirsson í gagnrýni í Morgunblaðinu að ávallt hafi verið hópur manna kringum verkin. Ekki voru þó allir sáttir við þetta framtak því mörg verkin voru nýstárleg og á mörkum þess sem almenningi þótti viðeigandi að kalla list – voru jafnvel hneykslanleg að því er sumum þótti. Þrándur í Götu, nafnlaus pistlahöfundur Vísis skrifaði: „Það er engin furða, að fólk sé yfirleitt hissa. Það getur verið gaman að svona sýningu einu sinni í ‘gamni’ en það má engin lifandi sála gera svona í alvöru, þá fer maður að halda að aðstandendur sýningarinnar séu skrýtnir.” Fleiri tóku til máls á þessum nótum og meðal annars voru ummæli Árelíusar Níelssonar birt í Morgunblaðinu: „Er íslenzk höggmyndalist að komast í sama bylgjudalinn og knattspyrnan? Það mætti halda, að svo væri, þegar litið er á útisýningu unga listafólksins við Ásmundarsal. Hvílík fádæmi!”

Gagnrýnendur lofuðu þó framtakið og þann kraft sem í því birtist, jafnvel þeir sem ekki virtust eiga gott með að ráða í verkin. Gretar Fells skrifaði gagnrýni um sýninguna í Alþýðublaðið í þessum anda, hann hrósar framtakinu en segir: „Margt er þar furðulegt að sjá og erfitt að átta sig á, hvað eigi að tákna …” Bragi Ásgeirsson mun einn hafa skrifað um sýninguna án þess að kippa sér upp við inntak eða framsetningu verkanna. Hann fann hins vegar að uppsetningu þeirra og þótti ekki hafa verið nægilega vandað til, enda fór svo að eitt verkið, Flugdreki eftir Sverri Haraldsson, fauk burt og fleiri verk skemmdust. Þá gjöreyðilögðu skemmdarvargar verk Ragnars Kjartanssonar, Klyfjahestana.

Í kjölfar sýningarinnar ákváðu borgaryfirvöld að styrkja tvo myndhöggvara, þá Hallstein Sigurðsson og Jón Gunnar Árnason, og var litið á styrkina sem greiðslu upp í verk sem þeir afhentu borginni seinna.

Það er óhætt að segja að þessi fyrsta útisýning á Skólavörðuholtinu hafi markað nokkur tímamót í myndlistarlífinu í Reykjavík og var til marks um þann anda sem ríkti í myndlistinni á þessum tíma. SÚM hafði nýlega verið stofnað utan um starfsemi ungra listamanna sem hneigðust að fluxus og ýmiss konar nýlist, en Jón Gunnar Árnason var þar einna fremstur í flokki líkt og við skipulagningu útisýningarinnar. Það sem líklega var þó einna sérstæðast við útisýninguna var að þar tóku höndum saman yngri listamenn og eldri, þeir sem stunduðu hefðbundna höggmyndalist, fígúratífa eða afstrakt, og hinir sem unnu í anda nýlista. Þessi breiða samstaða hélst meðan útisýningarnar voru haldnar og eftir að Myndhöggvarafélagið í Reykjavík var stofnað, og hefur alla tíð einkennt starfsemi þess.

Málaralistin hafði verið nær allsráðandi í íslensku myndlistarlífi frá upphafi tuttugustu aldarinnar. Nokkrir merkir myndhöggvarar höfðu þó komið upp, meðal annarra Einar Jónsson og síðar þau Ásmundur Sveinsson, Sigurjón Ólafsson, Jóhann Eyfells og Gerður Helgadóttir. En þótt þau ynnu mikið og nytu virðingar voru þau greinilega undantekning frá reglunni sem ávallt var málverkið. Lítil endurnýjun var meðal myndhöggvara enda lítil áhersla lögð á höggmyndalist í listnámi hér. Það var síðan upp úr miðjum sjöunda áratugnum að yngri listamenn fóru að leita eftir öðrum tjáningarleiðum en málverkinu og horfðu þá einkum til þeirra fersku strauma sem þá voru farnir að berast til Íslands frá meginlandinu og frá Bandaríkjunum. Fólk var farið að búa til listaverk úr bókstaflega hverju sem var og enginn hlutur var svo ómerkilegur að ekki mætti nýta hann í verk ef hugmyndin að því væri góð. Þetta var frelsandi uppgötvun því nú var hugarflugið ekki lengur bundið af hefð, reglum og samanburði við verk fortíðarinnar og eldri listamanna, en í henni fólst einnig mikil ögrun við hið borgaralega samfélag samtímans þar sem allt skyldi vera fágað og slétt og í föstum skorðum, bæði líf fólks og listin. Mikilvægi þessarar ögrunar og uppbrotsins sem því fylgdi má hægast ráða af viðbrögðunum við fyrstu útisýningunni á Skólavörðuholti þar sem íslenskur almenningur stóð í fyrsta sinn frammi fyrir hinni nýju list og var hneykslaður og heillaður í senn af uppátækinu.

Útisýningar voru haldnar næstu tvö ár og árið 1970 var sýningin orðin liður í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, og svo var einnig árið 1972. Sýningarnar vöktu athygli og urðu fastur liður í menningarlífinu. Fólk hætti að mestu að hneykslast á verkunum og friður var um sýningarnar þótt sum verkin þættu undarleg. Eitt þeirra sem mjög var rætt um á sýningunni 1970 var verkið Vörðubrot eftir Kristján Guðmundsson en það var hlaðið úr brauði. Verkið var hins vegar fjarlægt af heilbrigðisyfirvöldum þegar brauðin fóru að mygla.

Hafðu

samband!